Námskeið

Námskeið

Fimmtudaginn 6. júlí og föstudaginn 7. júlí.

Skráning á námskeið.

Dansar og tónlist frá Gíneu
  • Kennarar: Mamady Sano og Sandra Sano Erlingsdóttir
  • 6. og 7. júlí kl. 9.00 – 12.00. Alls 6 klst.
  • Fjöldi nemenda takmarkast við fjölda ásláttarhljóðfæra sem eru til staðar. Þeir sem taka með sér trommu eru öruggir inn.

Afrískur dans og trommuleikur frá Gíneu í V-Afríku. Nemendur læra að syngja, dansa og tromma rytma frá Gíneu. Einnig er sögð saga þeirra rytma sem kenndir eru. Nemendum er bent á að taka með sínar eigin trommur og tryggja sig þannig inn á námskeiðið: djembé trommur og doun doun trommur henta best en einnig nægir að vera með bongó-trommu.

Hópurinn Barakan dans og trommur var stofnaður af Mamady Sano og Söndru Sano Erlingsdóttur. Hópurinn sérhæfir sig í dansi og trommuleik frá Gíneu í Vestur-Afríku. Mamady er einn eftirsóttasti afríski danskennari og trommari í heiminum og ferðast út um allan heim til að kenna og taka þátt í sýningum. Sandra hefur kennt afrískan dans hér á landi síðan 2005 og hefur ferðast mikið til að læra af meisturum í afrískum dansi bæði í New York og Gíneu frá 1995.


Írsk þjóðlagatónlist.
  • Kennarar: Sophie Lavoie, fiðla og Fiachra O‘Regan, flautur.
  • 6. og 7. júlí kl. 14:00 – 17:00. Alls 6 klst..

Dagur 1: Tónlist fyrir fiðlu frá Quebec í Kanada

Námskeið fyrir hljóðfæraleikara og aðra áhugasama um írska tónlist frá Quabec í Kanada. Nemendur læra að minnsta kosti eitt lag frá Quebec. Sophie kemur frá Lac St-Jean og er að ljúka við MA í þjóðlagafræðum. Hún hefur nýlega lokið við rannsókn í hinum ýmsu stílum fiðluleiks við Saguenay Lac St-Jean.

Dagur 2: Írsk þjóðlagatónlist leikin á tinflautur

Byrjendanámskeið. Lært verður á írskar tinflautur. Nemendur fá flautu og læra lítið lag.


Sjalaprjón
  • Kennari: Guðrún Hannele Henttinen
  • 6. og 7. júlí kl. 9.00-12.00. Alls 6 klst.

Lýsing:

Sjalaprjón þarf ekki að vera flókið. Á þessu tveggja morgna námskeiði lærið þið að byrja á sjali frá hnakka. Hægt er að byrja bæði á einfaldan hátt og/eða með garðabút sem er örlítið flóknara.  Síðan er farið í nokkra möguleika við að útfæra sjal út frá eigin hugmynd.

Markmiðið er að allir læri tæknina við byrjunina og fari heim með sjal sem er komið vel á veg og einfalt verður að ljúka við.

Þið fáið lýsingu á þremur mismunandi leiðum til að auka út í sjal og fá þannig mismunandi lögun. Þið getið prófað allar þrjár eða einbeitt ykkur að einni og komist langt með sjal.

Hafa meðferðis:

Hægt er að nota hvaða garn og hvaða grófleika sem er í sjal en það er heppilegt fyrir byrjendur að vera hvorki með mjög fíngert garn eða of dökka liti.

Sjala- eða sokkagarn með um 400m í 100g ef góður grófleiki. 400m duga í litla hyrnu en nota þarf 6-800m ef hyrna/sjalið á að vera stærra.

Hringprjónn, 80cm langur fyrir sjalaprjón (með góðum oddum) (lace needles).

Prjónamerki (heil/lokuð).

Takið með skriffæri og munið eftir lesgleraugum ef þið notið þau.

Kennari verður með sjalagarn til sölu á námskeiðinu fyrir þá sem vilja og viðeigandi prjóna. Efnisgjald er á bilinu 3.000-4.500.- sem bætist þá við námskeiðisgjaldið og fer eftir því hvaða garn er valið.


Barnanámskeið fyrir 5-12 ára

Getur hver sem er búið til þjóðlag?
  • Kennarar: Ingibjörg Fríða Helgadóttir og Sigurður Ingi Einarsson
  • Fimmtudagur 6. júlí kl. 9.00-12.00 og 14.00-17.00. Þátttaka í barnatónleikum kl. 17.00
  • Föstudagur 7. júlí kl. 9.00-12.00

Ingibjörg Fríða og Sigurður Ingi eru bæði starfandi tónlistarmenn og hrærast í ýmsum tónlistarstílum: klassík, jazz, poppi, rokki og þjóðlagatónlist. Ingibjörg Fríða er söngkona og Sigurður Ingi trommari. Þau hafa bæði lokið burtfararprófi við jazz-popp og rokkdeild FÍH og bakkalársgráðu í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands þar sem megináhersla þeirra beggja var frjáls spuni. Þau hafa bæði verið virk í tónlistarkennslu og skapandi tónlistarsmiðjum með börnum, unglingum sem og fullorðnum.

Á námskeiðinu verður aðaláherslan lögð á skapandi vinnu með þjóðsögur og þjóðlög.


Sjá einnig heilsdags námskeið fyrir alla hjá Þjóðlagaakademíunni