Námskeið

Námskeið

Fimmtudaginn 4. júlí og föstudaginn 5. júlí 2019.

  1. Serbnesk þjóðlagatónlist. Kennari: Jelena Ćirić. Kl. 14.00-17.00
  2. Yfirtónasöngur. Kennari: Tómas Manoury. Kl. 9.00-12.00
  3. Að syngja bluegrass-söngva. Kennari: Paul Kirby. Kl. 14.00-17.00
  4. Húsin á Siglufirði og saga þeirra. Kennari: Örlygur Kristfinnsson. Kl. 9.00-12.00
  5. Þjóðlaganámskeið fyrir 5-11 ára. Kennari: Anna Jónsdóttir. Kl. 9.00-12.00

Verðskrá

Sjá einnig Þjóðlagaakademíuna þar sem íslensk þjóðlög eru í öndvegi.

Skráning á námskeið.

Námskeiðslýsing

Serbnesk þjóðlagatónlist. Kennari: Jelena Ćirić

Serbía á sér ríka og lifandi hefð sönglistar án undirleiks. Lögin voru upphaflega sungin til sveita við vinnu eða á samkomum og höfðu góð og endurnærandi áhrif á alla sem þátt tóku. Hljómagangur og formgerð laganna sýna hversu sterk áhrif vestræn og austræn tónlist hefur haft á serbneska tónlist. Þátttakendur á námskeiðinu læra að syngja tveggja radda serbnesk lög sem þeir læra að syngja í þeim sérstaka stíl sem einkennir sönglög frá Balkanskaga.

Jelena Ciric mynd.jpg

Jelena Ćirić fæddist í Serbíu en ólst upp í Kanada. Hún er nú búsett á Íslandi. Hún er tónskáld og stjórnandi kórsins Kliður.

Yfirtónasöngur. Kennari: Tómas Manoury

Á námskeiðinu verður kennd grunntækni yfirtónasöngs og gluggað í hljóðeðlisfræðina sem söngtæknin byggir á. Kynnt verður þjóðlagatónlist ólíkra heimsálfa þar sem yfirtónar eru ríkur þáttur.

Tómas Manoury mynd.jpg

Tómas Manoury er saxafónleikari, raftónlistarmaður og tónskáld. Hann hefur stundað yfirtóna- og barkasöng frá 15 ára aldri.  Á námskeiðinu mun hann deila reynslu sinni af yfirtónasöng og hversu víðtæk áhrif söngurinn hefur haft á feril hans sem tónlistarmanns.

Að syngja bluegrass-söngva. Kennari: Paul Kirby

Hvernig væri að bregða sér á námskeið í að syngja blágresistónlist, læra að móta lagínu, syngja án þess að særa röddina og finna rétta hljómana við laglínuna?

Paul Kirby.jpg

Paul Kirby lærði klassískan söng og vann fyrir sér sem óperusöngvari víða um heim. Fyrir nokkrum árum leitaði hann í blágresistónlistina frá æskustöðvum sínum í Appalachia-fjöllum í Bandaríkjunum og syngur hana nú með gítar eða banjo sér við hönd. Hann er búsettur í Osló og samhliða klassískum söng stjórnar hann blágresishljómsveitinni Moving Day! og leikur með þjóðlagasveitinni Felaboga sem kemur fram á Þjóðlagahátíðinni. Paul er afbragðsgóður kennari á sviði bandarísks þjóðlagasöngs.

Húsin á Siglufirði og saga þeirra. Kennari: Örlygur Kristfinnsson

Á námskeiðinu verður saga gamalla húsa á Siglufirði sögð og brugðið upp mynd af þeim sem þar bjuggu. Gengið verður um bæinn og skyggnst inn í skuggsjá tímans.

IMG_0337.jpeg

Örlygur Kristfinnsson var fyrsti safnstjóri Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði. Hann er myndlistarmaður og mikill áhugamaður um sögu Siglufjarðar.

Þjóðlaganámskeið fyrir börn 5 – 11 ára. Kennari: Anna Jónsdóttir söngkona

Á námskeiðinu skoðum við íslensk þjóðlög og hvernig má nota ýmsar leiðir til að tengjast lögunum, m.a. með sögum, myndskreytingum og hljóðskreytingum.  Einfaldir hljómar notaðir sem meðleikur/meðsöngur í þjóðlögum. Líkaminn og röddin skoðuð og prófuð sem hljóðfæri til meðleiks og samsöngs. 

portr-31.jpg

Við kynnumst fimmundarsöng og keðjusöng og æfum þesskonar lög. Skoðum sagnadans og lærum einfalt hringdansspor sem við dönsum við eigin söng. Tónleikar á föstudag þar sem við munum skoða hvort hægt er að halda þá á sérstökum stað sem gerir upplifunina fyrir bæði  þátttakendur og áhorfendur sterkari.

20160916_164004.jpg