Þjóðlagahátíðin á Siglufirði er fimm daga tónlistarhátíð fyrir alla fjölskylduna í einum nyrsta bæ landsins. Þjóðlagahátíðin hefur að leiðarljósi að kynna þjóðlagaarf ólíkra þjóða og þjóðarbrota. Á hátíðinni eru 18-19 tónleikar haldnir víðs vegar um Siglufjörð. Auk tónleika er boðið upp á námskeið, bæði í tónlist og handverki. Þjóðlagaakademían er svo háskólanámskeið opið öllum almenningi. Að ganga á milli tónleikastaða í kyrrð á sumarnóttu er upplifun sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Forsaga Þjóðlagahátíðar á Siglufirði
Þjóðlagahátíð á Siglufirði var fyrst haldin sumarið 2000 fyrir tilstuðlan Félags um Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði, Reykjavíkur, menningarborgar Evrópu árið 2000 og Siglufjarðarkaupstaðar. Hátíðin er skipulögð í nafni Félags um Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar, en samstarfsaðilar á Siglufirði eru Síldarminjasafnið og Siglufjarðarkirkja.
Markmið Þjóðlagahátíðar á Siglufirði
- að hvetja til varðveislu íslenskra þjóðlaga
- að stuðla að nýsköpun íslenskrar tónlistar
- að stefna saman listamönnum úr ólíkum áttum
- að varpa ljósi á menningararf Íslendinga og annarra þjóða
- að höfða til allrar fjölskyldunnar, barna, unglinga og fullorðinna
- að virkja heimamenn til samvinnu við innlenda og erlenda listamenn
- að halda nafni þjóðlagasafnarans sr. Bjarna Þorsteinssonar á lofti
- að verða einn hornsteina í starfsemi þjóðlagaseturs á Siglufirði
- að vera áhugaverður tónleikavettvangur fyrir konur jafnt sem karla
Erlendir og innlendir listamenn sem komið hafa fram á hátíðinni eru nokkur hundrað talsins og tugir kennara hafa kennt þar á námskeiðum. Fjölskyldur alls staðar að af landinu gera sér ferð til Siglufjarðar til þess að sækja tónleika og taka þátt í námskeiðum, enda er lögð áhersla á að allir finni þar eitthvað við sitt hæfi.
Námskeiðin á þjóðlagahátíð eru bæði á sviði tónlistar og forns handverks. Sum eru haldin ár hvert, önnur sjaldnar. Börnum er einnig boðið upp á sérstök námskeið og sumarið 2004 var haldið í fyrsta skipti sérstakt námskeið fyrir unglinga. Enda þótt hátíðin leggi áherslu á að rækta íslenskan þjóðlagaarf hafa fjölmörg tónverk verið frumflutt á hátíðinni.
Eyrarrósin
Þjóðlagahátíðin fékk fyrstu Eyrarrósina sem afhent var árið 2005. Eyrarrósin er viðurkenning og verðlaun sem veitt eru fyrir menningarstarfsemi á landsbyggðinni sem þykir með einhverjum hætti skara framúr. Verðlaunin eru samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands. Verðlaunagripurinn er eftir Steinunni Þórarinsdóttur og er varðveittur í þjóðlagasetrinu.
Listrænn stjórnandi þjóðlagahátíðarinnar frá upphafi hefur verið Gunnsteinn Ólafsson, tónlistarmaður.
Hér má sjá dagskrá þjóðlagahátíðarinnar frá upphafi
- Þjóðlagahátíðin 2000
- Þjóðlagahátíðin 2001
- Þjóðlagahátíðin 2002
- Þjóðlagahátíðin 2003
- Þjóðlagahátíðin 2004
- Þjóðlagahátíðin 2005
- Þjóðlagahátíðin 2006
- Þjóðlagahátíðin 2007
- Þjóðlagahátíðin 2008
- Þjóðlagahátiðin 2009
- Þjóðlagahátíðin 2010
- Þjóðlagahátíðin 2011
- Þjóðlagahátíðin 2012
- Þjóðlagahátíðin 2013
- Þjóðlagahátíðin 2014
- Þjóðlagahátíðin 2015
- Þjóðlagahátíðin 2016
- Þjóðlagahátíðin 2017
- Þjóðlagahátíðin 2018
- Þjóðlagahátíðin 2019